Dacoda og Opin kerfi gera samning um hýsingu

20.10.15

Dacoda hefur samið við Opin kerfi um hýsingu á netþjónum Dacoda í gagnaveri Opinna kerfa.

Á mynd frá vinstri: Davíð Þór Kristjánsson frá Opnum kerfum, Júlíus Guðmundsson frá Dacoda, Þorsteinn Gunnarsson frá Opnum kerfum og Ástþór Ingi Pétursson frá Dacoda

Einn fullkomnasti vélasalur landsins

„Með samstarfinu verða netþjónar Dacoda færðir í einn fullkomnasta hýsingarsal landsins, en flestir netþjónustuaðilar landsins og erlendir aðilar s.s. BT, Colt, Farice o.fl. eru með aðstöðu (POP) í gagnaveri Opinna kerfa. Við leggjum mikla áherslu á öryggismál, bæði öryggi gagna og rekstraröryggi og teljum að gagnaver Opinna kerfa í Reykjanesbæ sé öruggasta hýsingaraðstaða sem í boði er á Íslandi.“ segir Ástþór Ingi Pétursson, kerfisstjóri Dacoda.

Þjónusta við öflugt fyrirtæki á alþjóðamarkaði

„Það er viðurkenning fyrir Opin kerfi að öflugt fyrirtæki eins og Dacoda sem starfar á kröfuhörðum markaði hafi valið hýsingarlausnir okkar fyrir sinn rekstur. Fyrirtækið hannar og hýsir margar af stærri og flottustu vefsíðum landsins og er það mikil viðurkenning fyrir okkur að Opin kerfi hafi verið valið í það verkefni að styðja Dacoda í að þjónusta sína viðskiptavini. Opin kerfi hefur vaxið hratt í hýsingarþjónstu og rekstri og er með hundruði skápa í hýsingarþjónustu fyrir sína viðskiptavini, bæði innlenda aðila sem og erlend stórfyrirtæki segir Davíð þór Kristjánsson, forstöðumaður lausnasölu og ráðgjafar hjá Opnum kerfum.

Um Dacoda

Dacoda er hugbúnaðarfyrirtæki sem sérhæfir sig í þróun veflausna. Fyrirtækið var stofnað í byrjun árs 2002 og hefur tekið þátt í hundruðum verkefna fyrir fyrirtæki og stofnanir af öllum stærðum og gerðum. Ásamt því að þróa veflausnir býður Dacoda upp á hönnun fyrir prent og vef, vefhýsingu, tölvupóstþjónustu, rágjöf og þarfagreiningu og þróun á farsímalausnum.

Um Opin kerfi

Opin kerfi var stofnað árið 1985 og fagnar því 30 ára afmæli á þessu ári og hefur á að skipa öflugu teymi reyndra sérfræðinga á flestum sviðum upplýsingatækni með langa reynslu af ráðgjöf, þjónustu og innleiðingu lausna hjá flestum af stærstu og kröfuhörðustu fyrirtækjum og stofnunum landsins. Opin kerfi er samstarfs- og þjónustuaðili Verne Global þar sem hýsingarlausnir fyrirtækisins og innri kerfi eru rekin í einu fullkomnasta Tier III gagnaveri heims í dag.

 

Hafðu samband við ráðgjafa