Opin kerfi er SMB samstarfsaðili ársins hjá Microsoft Íslandi

14.09.16

Árlega tilkynnir Microsoft Ísland um val á samstarfsaðilum ársins í þremur málaflokkum. SMB (Small and Medium Business), CA (Corporate Accounts) og MBA (Microsoft Business Solutions Dynamics). Opin kerfi var valið SMB samstarfsaðili ársins að þessu sinni.

Á mynd: Jóhann Áki Björnsson ráðgjafi og viðskiptastjóri, Halldór Másson forstöðumaður hugbúnaðarlausna og Íris Eva Guðmundsdóttir vöru- og viðskiptastjóri hjá Opnum kerfum.

Opin kerfi hlaut útnefninguna í kjölfar þess að umfang félagsins jókst töluvert á síðasta ári og þau markmið náðust sem sett voru sameiginlega með Microsoft og gott betur. Góður árangur náðist í Office 365 þjónustu við viðskiptavini og vel hefur gengið að breyta hefðbundnum leyfum viðskiptavina í skýjaþjónustur Microsoft. Gríðarlegur vöxtur hefur orðið í CSP (Cloud Service Provider) samningum, en þar greiða viðskiptavinir einungis fyrir notkun sína í hverjum mánuði og eru ekki bundir í leyfissamninga í lengri tíma. Að endingu hefur tekist vel að breyta innviðum félagsins til að takast á við nýtt upplýsingatækniumhverfi og áherslur markaðarins í stafrænni umbyltingu.

„Microsoft hópur Opinna kerfa hefur með markvissri vinnu og stöðugri þekkingaruppbyggingu náð frábærum árangri við að kynna og innleiða Microsoft skýjalausnir á borð við Office365 hjá íslenskum fyrirtækjum. Fyrir vikið hafa mörg íslensk fyrirtæki náð að hagræða í upplýsingatæknirekstri sínum með því að bjóða starfsfólki upp á þann möguleika að sinna starfinu hvar og hvenær sem er. Microsoft væntir mikils af samstarfi við Opin kerfi á komandi árum“ segir Halldór Már Sæmundsson sölustjóri samstarfsaðila hjá Microsoft Ísland.

 

Hafðu samband við ráðgjafa