Eru íslenskar verslanir eftirbátar þeirra erlendu?

30.01.17

Mér finnst ekkert gaman að fara í íslenskar verslanir. Þær hafa tilhneigingu til að vera eins og breytast lítið. Síðasta nýjung sem kom í matvöruverslanir á Íslandi eru verðskannar, þeir voru kynntir í kringum árið 2009. Persónuleg þjónusta verslanna er oft af skornum skammti og samskipti við viðskiptavini lítil sem engin.

Ég var erlendis um jólin, nánar tiltekið í Bandaríkjunum. Að versla í Bandaríkjunum er allt önnur upplifun en á Íslandi. Hér fyrir neðan eru þrjú dæmi sem sýna hvað gerði þær verslunarferðir skemmtilegri fyrir mig sem viðskiptavin.

Gestanet með tilgang

Frítt þráðlaust net er alltaf kostur. Ef viðskiptavinurinn hefur engan ávinning af því að tengjast er ólíklegt að hann nenni því. Sem túristi tengdist ég þó alltaf þegar ég gat þar sem erlent gagnamagn er ekki ókeypis. Í sumum verslunum var ávinningurinn enginn, en þó voru sumar verslanir sem buðu upp á einhverjar gjafir t.d. súkkulaðistykki, kaffibolla eða afslátt af völdum vörum þegar ég hafði heimsótt verslunina og skráð mig fimm sinnum inn á þráðlausa netið. Ef ég þurfti að velja milli þess að „safna ferðum“ eða fara í búðina við hliðina, þá var ég alltaf líklegri til að fara þar sem ég myndi á endanum fá eitthvað frítt fyrir að heimsækja verslunina.

Tilboð miðað við staðsetningu

Að fá afslátt sem ég býst ekkert við að fá er alltaf skemmtilegt. Í fáein skipti voru send til mín skilaboð í símann um að ákveðin vara væri á afslætti fyrir mig í dag. Þetta voru allt vörur sem ég staldraði lengi við og skoðaði. Afslátturinn var ekki mikill en ég viðurkenni að í eitt skiptið var hann nóg til þess að ég tók endanlega ákvörðun um að kaupa vöruna í stað þess að labba út tómhentur.

Farsímaforrit fyrir verslunina

Þrjár verslanir sem ég fór í mæltu með því að ég myndi ná mér í snjallsímaforritin þeirra. Forritin voru mjög misjöfn og buðu upp á mismunandi þjónustu. Eitt forritið bauð upp á að panta mat og sleppa við allar raðir í versluninni. Á sama tíma safnaði ég punktum sem ég gat seinna notað til að kaupa vörur í forritinu. Annað forrit bauð upp á; leiðarvísi um verslunina, að skoða lagerstöðu, að sjá umsagnir um vörur, tilboð dagsins og biðja um aðstoð starfsmanns. Ég var mjög heillaður af þessum forritum og óskaði þess innilega að íslenskar verslanir myndu íhuga að gera eitthvað í líkingu við þetta. Möguleikarnir með farsímaforritum eru gífurlegir og oft er það einungis hugmyndaflugið sem er að standa í vegi fyrir nýjungum.

Allt þetta var gert í gegnum þráðlaust net og farsímann minn sem ég er alltaf með á mér. Ég var mun líklegri til að fara í þær verslanir sem buðu upp á þessa aukaþjónustu. Verslunin sjálf fékk í staðinn gífurlegt magn af upplýsingum sem hægt var að nota í markaðslegum tilgangi en nánar verður fjallað um það seinna.
Það styttist alltaf í að íslenskar verslanir taki meiri þátt í farsímavæðingunni, þær þurfa að passa sig að dragast ekki aftur úr þeim verslunum sem þora að taka skrefið. Ég vona að ég hafi gaman af því að versla á Íslandi í framtíðinni.

Ef þú hefur áhuga á að kanna möguleikann á að bæta upplifun viðskiptavinarsins og stíga aukaskref varðandi þjónustu sem þú veitir hafðu þá endilega samband við okkur hjá Opnum Kerfum.

//Trausti Eiríksson, trausti@ok.is