30 ára afmælisráðstefna Opinna kerfa

21.09.15

Fjölmenni var á 30 ára afmælisráðstefnu Opinna kerfa í Borgarleikhúsinu föstudaginn 11. september 2015. Fjöldi áhugaverðra fyrirlestra var á dagskránni en undirliggjandi þema ráðstefnunar snéri að gagnaversiðnaðinum með tilliti til sjálfbærrar endurnýjanlegrar orku og hagstæðrar legu landsins.

30 ára afmælisráðstefna Opinna kerfa

Lykilstaða Íslands með tilliti til staðsetningar milli helstu markaðssvæða heimsins, góðra tenginga við umheiminn, tæknilegra innviða og menntunarstigs þjóðarinnar er í kjörin til að taka við fjölbreytilegum verkefnum frá alþjóðlegum erlendum viðskiptavinum sem líta til landsins sem vænlegan kost þegar kemur að þeirri þjónustu sem veitt er í gagnaverum.

Opin kerfi hefur átt í nánu samstarfi við Verne Global sem rekur gagnaver á Ásbrú á Suðurnesjum en það valdi Opin kerfi sem sinn þjónustuaðila hérlendis við þau fyrirtæki sem vilja hýsa sitt umhverfi í gagnaverinu. Það hefur gengið framar vonum og hefur tekist í góðri samvinnu við erlenda lykil birgja að byggja upp viðskiptasambönd við fyrirtæki eins og BMW sem reka tölvuumhverfi sitt í gagnaverinu. Það samstarf hefur aukist með hverju ári og uppfyllt þær væntingar sem voru gerðar til þess og rúmlega það.

Tækifæri hvað varðar gagnaversiðnaðinn og tækni eru því óþrjótandi og tíminn er núna til að gera sem mest úr stöðunni, skilgreina verkefnin, fjárfesta í spennandi vegferð og skapa forskot í alþjóðlegri samkeppni. Eitt stærsta verkefni fyrirtækisins er að aðlagast þeim breytingum sem eiga sér stað á hverjum tíma og nú er svo komið að flest í okkar umhverfi, byggir meira og meira á tækjum sem tengjast saman gegnum háhraðanet og upplýsingum sem er miðlað í gegnum með þjónustu sem hýst er í skýinu eða miðlægt.

Á ráðstefnunni voru samankomnir fjölmargir viðskiptavinir, fulltrúar erlendra birgja, ásamt núverandi og fyrrverandi starfsmönnum sem mættu á staðinn og samfögnuðu með okkur. Í þessi 30 ár hefur hefur saga fyrirtækisins verið samofin þeirri miklu þróun og breytingum sem hafa orðið á upplýsingtækniumhverfinu. Starfsemi fyrirtækisins hefur snert flest svið atvinnulífsins á einhvern hátt en tekið miklum breytingum frá upphafi.

Bæði erlendir og innlendir fyrirlesarar stigu á stokk og var almenn ánægja með efni ráðstefnunar. Fundarstjóri var Þorsteinn Gunnarsson, forstjóri Opinna kerfa og Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra flutti opnunarávarp. Í stórum dráttum var dagskrá ráðstefnunar eftirfarandi:

  • 30 ára afmæli Opinna kerfa – Frosti Bergson, stjórnarformaður Opinna kerfa fór yfir söguna frá stofnun fyrirtækisins 1985 til dagsins í dag, þeir stórkostlegu breytingar sem hafa orðið í upplýsingatækninni þennan tíma og horfði til framtíðar.
  • Markaðssókn Landsvirkjunar í gagnaversiðnaði – Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, ræddi um möguleika Íslands í gagnaversiðnaði og markaðssókn Landsvirkjunar þar. Fór yfir mikilvægi samstarfs innlendra aðila til þess að hér sé samkeppnishæft rekstrarumhverfi fyrir slíkan iðnað.
  • Iceland – the Forward Thinking Choice for Data Centers, Dominic Ward Executive Director hjá Verne Global ræddi um af hverju fyritækið valdi Ísland sem stað fyrir gagnaver og hvar helstu áskoranir lágu í upphafi bæði hvað varðar Verne og Ísland. Þá fór hann yfir þau verkefni sem upplýsingatækniiðnaðurinn stendur frammi fyrir, allt frá ótrúlegri aukningu í gagnamagni og vöxt í skýjalausnum, til aukinnar áherslu iðnaðarins á ofurtölvur og hvers vegna staðsetning Íslands er kjörin til að sinna þessum og framtíðarþörfum upplýsingatækninnar.
  • Mótun rafrænnar stjórnsýslu, Skúli Eggert Þórðarson, Ríkisskattstjóri fór yfir þróun, hindranir og verkefni sem til staðar eru í rafrænni stjórnsýslu og þá frá sjónarhorni Ríkisskattstjóra.
  • Spiluð var afmæliskveðja sem Opnum kerfum barst frá Meg Whitman, forstjóra HP og verðandi forstjóra HP Enterprise og Dion Weisler, verðandi forstjóra HP þar sem þau þökkuðu fyrir samstarfið síðustu 30 ár með von um áframhaldandi frábært samstarf í framtíðinni.
  • The Future of a Two-Car Garage, Thomas Jensen Vice President, PPS WW Channel Sales Hewlett-Packard Company og Hans Daniels Vice President Enterprise ræddu um skiptingu HP í tvö fyrirtæki og þeirra sýn á framtíðina í upplýsingatækni.

Í lok ráðstefnunnar var þátttakendum boðið upp á létta rétti og drykki í tilefni dagsins.

Myndband frá ráðstefnunni