Upphafið

Veturinn 1983-84 unnu tveir viðskiptafræðinemar að úttekt á íslenska tölvumarkaðinum. Í ljós kom að Hewlett-Packard hafði sterka markaðshlutdeild erlendis en enga á Íslandi. Tvímenningarnir skrifuðu til Hewlett-Packard í Genf og viðruðu áhuga sinn á því að opna skrifstofu fyrir Hewlett-Packard á Íslandi. Þeir fengu þau svör að ef fjárhagslegur bakgrunnur væri tryggður og til staðar væri meiri markaðsþekking á íslenska tölvumarkaðinum, þá væri Hewlett-Packard reiðubúið til viðræðna. Í framhaldi af nánari viðræðum var það mat Hewlett-Packard að réttasta leiðin væri að Hewlett-Packard opnaði eigið útibú í stað þess að fara þá leið að finna umboðsmann hérlendis. Frosti Bergsson var ráðinn framkvæmdastjóri útibúsins og byrjað var smátt, nánar tiltekið við eldhúsborðið heima hjá honum.

1985-1990

Hewlett-Packard á Íslandi var „alútlenskt“ fyrirtæki eins og það var kallað í dagblöðunum. Starfsemi fyrirtækisins olli nokkrum taugatitringi á tölvumarkaðinum og framtakssamir aðilar fóru fram á að Verðlagsstofnun kannaði lögmæti starfseminnar.
Útibú Hewlett-Packard á Íslandi var formlega opnað 8. maí 1985. Í tilefni af opnuninni var Verkfræðistofnun Háskóla Íslands fært að gjöf tölvuvætt teiknikerfi. Fjölmargir gestir, innlendir og erlendir, óskuðu Hewlett-Packard velfarnaðar á Íslandi. Þeirra á meðal var Steingrímur Hermannsson, þáverandi forsætisráðherra.

Hewlett-Packard var annað alþjóðlega tölvufyrirtækið til að stofna útibú á Íslandi. Árið áður hafði IBM opnað útibú. Þetta þóttu mikil tíðindi á þessum tíma og setja þurfti sérstök lög um opnun útibúsins, en það var þáverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra Matthías Á. Mathiesen sem hafði forgöngu um málið. Starfsmenn Hewlett-Packard á Íslandi voru fimm talsins. Menn voru stórhuga og leigt var húsnæði að Höfðabakka 9, sem er enn aðsetur fyrirtækisins en fermetrunum hefur fjölgað.

Fyrsti stóri samningurinn var við Reiknistofu lífeyrissjóðanna. Notendur á kerfinu voru 200 talsins og tengingar um allt land. Þetta var fyrsta prófraunin á tengingu í gegnum x-25 víðnet Pósts og síma. Hewlett-Packard á Íslandi í samstarfi við TOK seldu heildarlausnir, hugbúnað og vélbúnað, meðal annars til margra endurskoðunarskrifstofa á Íslandi.
Árið 1986 var RISC tæknin kynnt. Mikilvægir viðskiptavinir eins og Orkustofnun, Reiknistofa HÍ og Reiknistofa Pósts og síma koma til sögunnar. Allt frá upphafi var lögð áhersla á samstarf við íslensk hugbúnaðarhús. Í auglýsingum fyrirtækisins frá þessum tíma segir: „Íslenskt hugvit og alþjóðleg reynsla tryggja góðan árangur“.
Sífellt fleiri viðskiptavinir sáu kosti Hewlett-Packard. KEA bættist í hópinn árið 1987 svo og Reykjavíkurborg með Landupplýsingakerfi Reykjavíkurborgar, LUK-R. Samið var við Pharmaco um sölu á Hewlett-Packard lækna- og efnagreiningartækjum árið 1990.

1991-1995

Frosti Bergsson, ásamt starfsmönnum og Pharmaco keyptu 75% hlut í félaginu árið 1991 og það varð íslenskt hlutafélag og fékk nafnið HP á Íslandi hf. Markmiðið var að auka sveigjanleika og sníða fyrirtækið að íslenskum aðstæðum. Í auglýsingu í tilefni af breytingunum sagði: „Með opnum kerfum og góðri fótfestu á íslenskum markaði eru nýja fyrirtækinu og viðskiptavinum þess allir vegir færir“.
Gerður var samningur við endursöluaðilana Tæknival hf., Örtölvutækni-Tölvukaup hf. og Heimilistæki árið 1992. Þá má segja að heildsölurekstur fyrirtækisins hafi orðið til og er heildsalan rekin enn þann dag í dag í svipaðri mynd.
Á árinu 1992 var gerður tímamótasamningur þar sem sett var upp víðnet og netbúnaður fyrir Ríkisskattstjóra og allar skattstofur landsins.

„Í nýjan ham“ var yfirskrift ráðstefnu á vegum HP á Íslandi árið 1994. Þar var annars vegar vísað í nýjar áherslur í starfsemi fyrirtækisins og hins vegar til þess að HP kynnti merkar nýjungar sem voru í takt við þær breytingar sem voru að verða á starfsumhverfi fyrirtækja.
Velta HP á Íslandi fór yfir 500 milljónir kr. á árinu 1994 og starfsmenn voru orðnir 17 talsins.
Árið 1995 seldi Hewlett-Packard 25% hlut sinn í HP á Íslandi til félagsins og í framhaldi af því var nafni þess breytt í Opin kerfi hf. Fjárfestingarekstur hófst með kaupum á hlut í Tæknivali hf. og Teymi (Oracle).

Starfsemi fyrirtækisins olli nokkrum taugatitringi á tölvumarkaðinum og framtakssamir aðilar fóru fram á að Verðlagsstofnun kannaði lögmæti starfseminnar.

1996-2000

Heimasíða Opinna kerfa hf. var opnuð árið 1996. Heimasíðan var með beintengingu við heimasíðu Hewlett-Packard þar sem allar upplýsingar um HP vörur og þjónustu var að finna. Á þessum tíma var um byltingu að ræða hvað varðar aðgengi upplýsinga og samskipti milli landa, en til dæmis var hægt að sækja uppfærslur á prentararekla og biosa.
Á árinu 1996 sló nýi örgjörvinn PA-8000 öllum öðrum við, en Reiknistofa lífeyrissjóðanna og Tölvumiðstöð sparisjóðanna voru meðal fyrstu kaupenda. Þá hófst einnig sala og þjónusta á Cisco víðnetsbúnaði og Microsoft hugbúnaði.

Árið 1997 var tímamótaár í rekstri félagsins. Veltan fór yfir einn milljarð kr. í fyrsta sinn (heildarvelta 1.210 milljónir kr.) og starfsmenn félagsins voru orðnir 35. Keyptur var meirihluti í Skýrr hf. og í samstæðu uppgjöri var veltan vel yfir tveir milljarðar kr. og starfsmenn samstæðunnar orðnir 159. Á árinu 1997 var einnig keyptur hlutur í tölvufyrirtækinu ACO og 1998 var keyptur stór hlutur í Tæknivali.

Hlutabréf félagsins voru skráð á Verðbréfaþing Íslands (Kauphöll Íslands) og á árinu 1998 hækkuðu hlutabréf í Opnum kerfum hf. mest allra á markaðinum eða um 128,4%.
Á árinu 1998 undirritaði Ríkisskattsjóri rekstrarleigusamning (HP Finans) við Opin kerfi um 250 einkatölvur og vakti samningurinn verulega athygli. Á árinu 2000 voru rekstrartekjur samstæðunnar 5.446 milljónir kr. og móðurfélagsins 3.168 milljónir kr. Hagnaður samstæðunnar fyrir tekjuskatt var 632 milljónir króna og móðurfélagsins 463 milljónir kr.

2001-2006

Útrás Opinna kerfa hófst árið 2001 þegar fyrirtækið keypti í nóvember þess árs öll hlutabréf í Datapoint Svenska AB í Svíþjóð fyrir um 1700 milljónir íslenskra króna. Hjá fyrirtækinu störfuðu um 120 starfsmenn. Einnig var fyrirtækið Enterprise Solutions A/S stofnað í Danmörku í desember 2001.
Árið 2002 fór velta félagsins í heild yfir 10 milljarða króna og fjöldi starfsmanna yfir 400.
Árið 2002 keypti Hewlett-Packard tölvufyrirtækið Compaq, en þau voru sameinuð undir nafninu HP. Í bréfi sem Opnum kerfum barst frá Carly Fiorina þáverandi forstjóra HP kom fram að samruninn yrði viðskiptavinum beggja fyrirtækja til hagsbóta bæði hvað varðaði vöruúrval og þekkingu. Í kjölfarið varð Opin kerfi eini innflutnings-, sölu- og þjónustuaðili nýja HP á Íslandi.
Mikil áhersla var lögð á fagmennsku í samskiptum við hluthafa, greiningaraðila og fjölmiða. Félagið fékk meðal annars fjárfestatengsla verðlaun (IR Awards) árin 2002 og 2003 í flokki minni og meðalstórra fyrirtækja.
Stofnað var nýtt félag, Opin kerfi ehf. 1. janúar 2003, sem tók við sölu- og þjónustustarfseminni á Íslandi. Nafni móðurfélagsins var jafnframt breytt í Opin Kerfi Group hf. Helstu dótturfélög þess voru Opin kerfi ehf., Skýrr hf., Datapoint AB (nú Kerfi AB) og Enterprise Solutions A/S (nú Kerfi A/S).
Á árinu 2003 keypti Opin Kerfi Group hf. Virtus AB og sameinuðu Datapoint Svenska AB undir nafninu Kerfi AB og miðaði lögformleg sameining við 1. janúar 2004. Enterprise Solutions keyptu í mars 2003 allt hlutafé í upplýsingatæknifyrirtækjunum Delta Teamco og Delta Consulting en það var áfangi í að auka umsvif starfseminnar í Danmörku.
Opin Kerfi Group hf. velti 14,7 milljörðum króna árið 2004 og voru starfsmenn þess um 600. Markaðsverðmæti félagsins var þá rúmlega 8 milljarðar kr. Kögun hf. gerði síðla árs 2004 yfirtökutilboð í öll hlutabréf félagsins sem gekk eftir og í kjölfarið var félagið afskráð úr Kauphöll Íslands.

Nýir eigendur færðu Skýrr hf. og Teymi ehf. beint undir rekstur Kögunar þar sem starfsemi Kögunar var flokkuð annars vegar með áherslu á hugbúnað og hins vegar áherslu á vélbúnað. Opin Kerfi Group hf. samanstóðu þá af Opnum kerfum ehf., Kerfi AB í Svíþjóð og Kerfi A/S í Danmörku og var áherslan lögð á sölu tölvubúnaðar, tengda ráðgjöf og þjónustu.

2007 – 2014

Í nóvember 2007 keypti OK2 ehf., eignarhaldsfélag í eigu Frosta Bergssonar, Opin kerfi ehf. af Opin Kerfi Group hf. Fljótlega samþykktu stjórnir Opinna kerfa ehf. og Titan ehf. að sameina félögin og hófst undirbúningur í desember 2007 og varð sameiningin að veruleika þann 14. mars 2008. Velta ársins 2007 var rúmlega 3,3 milljarðar kr. með 101 starfsmenn. Um vorið 2008 var byrjað á aðhaldsaðgerðum og hagræðingu sem stóð yfir allt árið og megnið af 2009. Þetta dró verulega úr kostnaði og jók hagkvæmni í rekstri. Velta ársins 2008 var um 3,5 milljarðar kr. með 119 starfsmenn og 2009 um 3,6 milljarðar kr. með 95 starfsmenn.
Á árinu 2012 gekk Opin kerfi til samstarfs við japanska tæknirisann Fujitsu um dreifingu, sölu og þjónustu á öllum vörutegundum fyrirtækisins. Fujitsu, sem er þriðja stærsta upplýsingatæknifyrirtæki heims og það stærsta í Japan, var áður áberandi á íslenska tölvumarkaðnum en hinar eftirsóttu og heimsþekktu vörur fyrirtækisins hafa verið ófáanlegar hér á landi í mörg ár. Þá tilkynnti alþjóðlega fyrirtækið Verne Global sem opnaði nýverið eitt fullkomnasta gagnaver heims að Ásbrú í Reykjanesbæ, að það hefði valið Opin kerfi sem samstarfs- og þjónustuaðila til stuðnings við starfsemi sína hér á landi. Opin kerfi vænta mikils af því samstarfi og hefur fyrirtækið fundið mikinn meðbyr bæði hérlendis og erlendis í kjölfar þessa samnings. Fleiri stórir samningar hafa litið ljós á síðustu misserum og má segja að gangur fyrirtækisins sé með besta móti miðað við þær aðstæður sem fyrir eru í íslensku viðskiptalífi.
Á árinu 2013 hlaut Opin kerfi hf. vottun frá breska staðlafyrirtækinu The British Standards Institution og nær vottunin yfir heildarhýsingarþjónustu fyrirtækisins í gagnaveri Verne Global og þjónustu við alla samningsbundna viðskiptavini sem útvista rekstri tölvu- og upplýsingakerfa til Opinna kerfa. Vottunin er fyrirtækinu afar mikilvæg því með henni staðfestir utanaðkomandi fagaðili gæði verkferla sem unnið er eftir hjá fyrirtækinu til að tryggja rétta og örugga meðhöndlun við vörslu gagna og stöðuga þjónustu við viðskiptavini.
Fyrirtækið hefur frá upphafi verið til húsa að Höfðabakka 9 og á árinu 2013 var farið í gagngerar breytingar á því þar sem lögð var áhersla á að bæta aðstöðu starfsmanna til muna, bæta fundaraðstöðu og móttöku viðskiptavina. Þá eru unnið að því að gera allar byggingar að Höfðabakka 9 að vistvænum skrifstofugörðum. Starfssemin hefur verið í opnu skrifstofuumhverfi og var sérstaklega tekið tillit til þess við hönnunina varðandi hljóðbærni, afdrep og aðstöðu fyrir starfsmenn. Þá hefur aðstaða fyrir fundi og fyrirlestra einnig tekið stakkaskiptum til hins betra og gert fyrirtækinu kleift að halda ýmsa viðburði innanhúss sem áður þurfti að fara út úr húsi með.
Samsetning viðskiptavina fyrirtækisins hefur tekið nokkrum breytingum síðustu misseri og þar hefur samstarfið við Verne Global aukið vægi þjónustu við erlendra sviðskiptavini í rekstrinunum og má þar nefna stórfyrirtækið BMW. Starfsemin í gagnaverinu og umfang þessa hluta rekstrarins er af áður óþekktum skala hérlendis hvað varðar reiknigetu, afköst og geymslupláss.
Opin kerfi er viðkenndur „HP Platinum partner“ „Cisco Silver Partner“, „Fujitsu Select Circle Partner“ og „Microsoft Partner“ með bæði gull og silfur stöðu, en félagið er stærsti sölu- og þjónustuaðili fyrir Microsoft Classic vörur og þjónustu á Íslandi. Einnig hefur fyrirtækið yfirgripsmikla þekkingu á „Open Source“ lausnum og selur og veitir þjónustu fyrir lausnir frá aðilum eins og Eaton Power, Apple, RedHat, VMWare, Symantec og fleirum.
Á árinu 2014 urðu þær breytingar helstar að félagið tók yfir sölu og dreifingu á farsímaarmi Nokia sem nýlega hafði verið keyptur af Microsoft. Enn fremur var sá hluti innkaupa og dreifingararms félagsins sem sá um dreifingu á Microsoft hugbúnaðarleyfum seldur til Crayon Group, sem er í hópi 10 alþjóðlegra leyfissamstarfsaðila Microsoft (LSP/LAR) og meðal 3 stærstu endursöluaðila á hýsingarleyfum fyrir Microsoft í heiminum.
Forstjóri Opinna kerfa hf. er Þorsteinn Gunnarsson og hjá félaginu starfa nú um 100 sérfræðingar og velta þess var rúmir 5 milljarðar árið 2015.